Skip to main content

Að heyra raddir, sjá sýnir eða eiga aðrar óhefðbundnar skynjanir

Það að heyra raddir, sjá sýnir eða upplifa aðrar tengdar skynjanir er eðlilegur hluti af mannlegum fjölbreytileika og það eru mannréttindi okkar að geta rætt þessar upplifanir við skilningsríka jafningja án sjúkdómastimplunar. Í byrjun febrúar 2019 hittist „Raddahópurinn“ í Hugarafli í fyrsta sinn. Eitt af meginmarkmiðum hópsins er að veita öruggt umhverfi til þess að ræða um óhefðbundnar upplifanir á jafningjagrunni. Mæting í hópinn fjölgaði hratt og fór fram úr væntingum hópstjóranna. Hópurinn hittist á hverjum fimmtudegi. Í dag heitir hópurinn “Raddir, sýnir og skynjanir” til að endurspegla enn frekar breidd þeirra upplifana sem ræddar eru meðal jafningja. 

            Þau sem heyra raddir hafa í gegnum söguna ítrekað verið útilokuð, upplifun þeirra sjúkdómsvædd, rætt um þau á fordómafullan máta og brotið á mannréttindum þeirra. Því miður er enn mikil þöggun og fordómar sem ríkja hvað varðar skynjanir sem þessar og gegn þeim sem lifa með óhefðbundnum upplifunum. Hearing Voices Movement hefur útbreiðslu um heim allan. Markmið hreyfingarinnar er að styðja þau sem heyra raddir til að finna leiðir til að lifa með röddum og leysa þessa upplifun úr ánauð. Hreyfingin hefur verið starfrækt víðsvegar um heim í rúmlega þrjá áratugi. Þann 4. apríl 2019 var stofnfundur íslensku landssamtakanna Hearing Voices Iceland haldinn. Stofnendur voru Fanney Björk Ingólfsdóttir, Auður Axelsdóttir og Svava Arnardóttir.

Tilgangur félagsins er:

  1.   Að opna umræðu um mannréttindi einstaklinga sem heyra raddir, sjá sýnir eða hafa aðrar óhefðbundnar upplifanir.
  2.   Að vera til staðar fyrir einstaklinga sem heyra raddir og stuðningsnet þeirra.
  3.   Að fræða samfélagið um þýðingu radda og annarra óhefðbundinna upplifana til að uppræta fordóma.
  4.   Að stuðla að bættu geðheilbrigðiskerfi sem veitir uppbyggjandi þjónustu til einstaklinga sem heyra raddir.
  5.   Að þróa gagnlegar aðferðir sem byggja á virðingu og styðja einstaklinga sem heyra raddir til að takast á við erfiðar upplifanir af röddum.

Hearing Voices Iceland er með virka facebook likesíðu [hlekkur] og hafa boðið upp á ýmis konar opna viðburði til að auka umræðu um þessar upplifanir án sjúkdómsstimpla.

Starfsemi þessara nýju samtaka og jafningjahópsins “Raddir, sýnir og skynjanir” hefði aldrei geta gengið eins vel og skildi án ötuls stuðnings Hugarafls og Hugaraflsfélaga. Mikil skörun er á milli félagsfólks beggja hópa. Umsókn um félagsaðild í Hearing Voices Iceland fer fram á https://forms.gle/8YVLu19SaaWxUgGv8. Landssamtökin HVI eru aðilar að heimssamtökunum Intervoice (intervoice.org). 

Nánari upplýsingar veita Fanney Björk formaður HVI á fanney (@) hugarafl.is og Svava stjórnarmeðlimur á svava (@) hugarafl.is.