Skip to main content
Greinar

Það er lágmark að fólk tali saman

By febrúar 22, 2014No Comments

Dagdeild iðjuþjálfunarinnar er einstök og hún hefur hjálpað mörgum í gegnum árin.
Eftir Bergþór G. Böðvarsson

EINS og víða í þjóðfélaginu er verið að spara, eða hagræða, á Landspítalanum. Á geðsviði spítalans, því sviði sem undirritaður starfar við, verður tveimur deildum lokað í vor. Annars vegar er það endurhæfingar- og hjúkrunargeðdeild 14 á Kleppi og hins vegar dagdeild iðjuþjálfunar við Hringbraut.

Kannski er rétt að loka deild 14 því það á jú enginn að þurfa að búa á geðdeild en það sem ég finn mest að þessum lokunum er að eins og er eru ekki til úrræði fyrir alla sjúklinga deildar 14, né skjólstæðinga iðjuþjálfunar. Ég hef orðið var við að einstaklingar sem hér um ræðir finni fyrir óöryggi og kvíða varðandi framhaldið. Vissulega er verið að vinna að því að koma upp úrræði, en óvissan á bak við þetta eykur bara tilfinningalegt óöryggi sjúklinga og aðstandenda þeirra. Það er því mikilvægt að þeir sem vinna að þessum málum geri það vel og örugglega og leyfi þeim sem um ræðir að fylgjast með gangi mála.

Iðjuþjálfun og önnur úrræði
Dagdeild iðjuþjálfunarinnar er einstök og hún hefur hjálpað mörgum í gegnum árin. Margir fyrrverandi sjúklingar á geðsviði Hringbrautar hafa hrósað þessari starfsemi, því hún skipti sköpun í bataferli þeirra. Umhverfið þar er vinnutengt og minnir lítið á sjúkrahúsumhverfi sem fyrir marga er nauðsynlegt skref að taka áður en til útskriftar kemur. En í stað þess að hugsa til þess að sjúklingar geti farið í hvetjandi umhverfi svo þeir geti tekist á við auknar kröfur og líði betur þá á að breyta þessu. Iðjuþjálfar á geðsviði Hringbrautar eiga nú að fara að vinna inni á móttökudeildum. Það væri svo sem frábært ef einhverjir iðjuþjálfar gætu verið á deildunum því þá væri kannski von að iðjuþjálfunin kæmi fyrr inn í meðferðarferlið og sjúklingurinn hefði meira val um meðferð. Kannski kæmist iðjuþjálfunin þá svo snemma inn í meðferðarferlið að viðkomandi fengi að heyra um eða reyna aðra meðferð áður en lyf eru nefnd til sögunnar. Það væri gott því ég tel að allt of oft sé viðkomandi selt það að lyfin virki best áður en hann er upplýstur og látinn reyna aðra meðferð. En því miður er það svo að það sem hefur háð starfsemi iðjuþjálfunarinnar mest er skortur á iðjuþjálfum. Þrátt fyrir óskir sjúklinga um aukna iðjuþjálfun hefur iðjuþjálfum starfandi á geðsviði Landspítalans farið fækkandi undanfarin ár. Af hverju þetta er er ekki gott að segja en til að hægt sé að veita viðunandi heilbrigðisþjónustu á geðsviði finnst mér að iðjuþjálfun verði að koma snemma inn í meðferðarferlið og, eins og fyrr segir, stundum áður en viðkomandi er seld sú hugmynd að lyf séu betri en önnur meðferð.

Talað er um að öll dagdeildarþjónusta iðjuþjálfunar á geðsviði eigi að fara inn á Klepp sem er gott ef það næst að efla starfsemina þar. En til að það sé hægt þarf að ráða fleiri iðjuþjálfa, það er alveg á hreinu. Það er líka ljóst að bara hluti þeirra skjólstæðinga sem nýttu sér iðjuþjálfun geðsviðs Hringbrautar mun fara inn á Klepp. Sumir þeirra eiga ekki erindi þangað, aðrir munu kannski ekki vilja fara þá leið og, eins og fyrr segir, þá hefur skortur á iðjuþjálfum innan geðsviðs háð þeirra starfsemi. Það segir sig sjálft að það þýðir lítið að vera með iðjuþjálfun ef það eru ekki neinir iðjuþjálfar!

Þeir eru margir sem eru fylgjandi af-stofnanavæðingu og segja að það eigi að leggja áherslu á iðjuþjálfun í nærumhverfi fólks við að aðstoða það við hindranir í daglegu lífi. Ég er sammála því að mörgu leyti en eins og staðan er í dag er ekkert annað úrræði sem býður upp á sömu þjónustu og boðið er upp á hjá dagdeild iðjuþjálfunar á Hringbraut. Þar að auki er „brúin“ eða tengingin út í samfélagið fyrir inniliggjandi sjúklinga, sem oft er talað um, ekki nógu traust svo það komast ekki allir af geðdeild í önnur úrræði. Í 22. grein laga um réttindi sjúklinga segir m.a.: „Áður en að útskrift sjúklings kemur skulu aðstæður hans kannaðar og honum tryggð fullnægjandi heimaþjónusta eða önnur úrræði eftir því sem unnt er.“ Eftir því sem ég best veit hefur ekkert samráð verið haft við notendur þjónustunnar eða forstöðumenn þeirra úrræða sem fyrir eru. Kannski verður þetta til þess að öflug samvinna spítalans við önnur úrræði og stofnanir verði fest í sessi, en þá verða líka allir sem vinna eða koma að þessu að tala saman.

Höfundur starfar sem fulltrúi notenda á geðsviði LSH.