Skip to main content
FréttirGeðheilbrigðismál

„Ég ætla að ganga fyrir mig og dóttur mína sem hefði misst mömmu sína aðeins 2 ára gömul.“

By maí 4, 2016No Comments

„Fyrir ári síðan þá keyrði ég út í buskann ásamt lúku af lyfjum og flösku af bacardi. Ég ætlaði að gera það sem að mínu mati var best fyrir alla og ætlaði loksins að binda enda á þennan endalausa sársauka. Ég sá ekkert nema myrkur þennan tíma og var sannfærð um að þetta væri eina lausnin.“

Svona hefst frásögn Salnýjar Sifjar Júlíusdóttur Hammer sem var einungis hársbreidd frá því að enda líf sitt í apríl árið 2015. Hafði hún þá sokkið djúpt ofan í hyldýpi þunglyndis og sjálfsskaða. Í dag, rúmu ári síðar, er hún á góðum batavegi en hún telur gríðarmikilvægt að opna á umræðuna um sjálfsvíg enda sé það ennþá ákveðið tabú í samfélaginu.

Salný er 22 ára og móðir hinnar 3 ára gömlu Nadíu Lívar, og jafnframt ein af þeim sem stíga fram með sögu sína í nýju myndskeiði sem framleitt var í tilefni göngunnar „Úr myrkrinu inn í ljósið“ sem fram fer á laugardaginn. Markmið göngunnar er að vekja athygli á sjálfsvígum, sjálfsskaða og sjálfsvígsforvörnum og heiðra jafnframt minningu þeirra sem látist hafa af völdum sjálfsvíga og að vekja athygli á alvarleika þessa málefnis. Pieta Ísland, sem samastendur af fulltrúum frá Hugarafli, Lifa-landssamtökum aðstandenda eftir sjálfsvíg, ásamt fleirum einstaklingum, stendur að göngunni sem lesa má nánar um áFacebook-síðunni Darkness into Light- Úr myrkrinu í ljósið

„Ég endaði nær dauða en lífi og eyddi næstu þrem dögum á gjörgæslu í öndunarvél. Ég var lengi að sætta mig við að þetta hefði ekki tekist. Lífið var ekki tilbúið að sleppa mér og hef ég lært helling á þessu ári sem hefur liðið.
Þegar manneskja tekur sitt eigið líf er það ekki vegna sjálfselsku heldur vegna mikils sársauka og manneskjan heldur að þetta sé best fyrir alla. Lífið er algjörlega þess virði að lifa því ef maður fær aðstoð við það, því enginn getur barist við svona einn. Þessi umræða er svo virkilega þörf enda deyr næstum einn Íslendingur úr sjálfsvígi í hverri viku. Við verðum að opna umræðuna og hætta þessari skömm.“

Var kominn á botninn

Í samtali við blaðamann segir Salný að þunglyndið hafa fylgt sér frá unglingsárum, og látið virkilega á sér kræla þegar hún var 16 ára gömul. Hún hafði þá orðið fyrir miklu áfalli. „Ég fór þá uppá heilsugæslu en það eina sem ég fékk út úr þeirri heimsókn var að ég labbaði út með blað með Geðorðunum tíu. Þannig að skiljanlega hjálpaði það ekki,“ segir hún. Í kjölfar meðgöngu og fæðingu dóttur sinnar sökk hún virkilega djúpt.

„Mér finnst í rauninni alveg ótrúlegt hvað mér tókst að þrauka lengi og berjast lengi áður en ég ákvað að lausnin væri að taka mitt eigið líf,“ segir hún og bætir við að viku áður en hún reyndi sjálfsvíg hafi hún leitað til geðdeildar en verið vísað heim þó svo að ástand hennar hefði verið mjög alvarlegt. „Svo kom ég daginn eftir og lagðist inn í einhverjar nætur en sú innlögn nægði mér ekki til að komast út úr sjálfsvígshugsununum.“

„Ég tók síðan þá ákvörðun að taka eigið líf því það ég sá enga aðra lausn. Þetta var endastöðin,“ segir hún og bætir við að það hafi bjargað lífi hennar að hún náði að gera vinkonum sínum viðvart áður henni tókst ætlunarverk sitt. Eftir dvöl á gjörgæslu tók við vist á geðdeild Landspítalans og síðan þá hefur Salný sótt stuðning hjá Hvítabandinu og Hugarafli.

Hún tekur hiklaust undir það að opna þurfi ennfrekar á umræðuna um sjálfsvíg og sjálfskaða í samfélaginu, þó svo margt gott starf hafi verið unnið, til að mynda með samfélagsmiðlabyltingunni #Égerekkitabú. Alltaf megi gera betur.

„Þetta má ekki vera feimnismál og það verður að vera hægt að tala um þetta. Það eru svo margir sem líta á það þannig að þetta sé athyglissýki í fólki, en þetta er svo miklu alvarlegra og flóknara mál.“

Hún vonast jafnframt til þess að geta hjálpað öðrum með því að stíga fram með sína sögu og gefið þeim von. Hún hvetur um leið alla til að taka þátt í göngunni, aðfaranótt 7.maí.

„Ég ætla að ganga fyrir mig og dóttur mína sem hefði misst mömmu sína aðeins 2 ára gömul.“

Salný birtir frásögn sína á Facebook og rifjar þar upp daginn örlagaríka fyrir tæpu ári, þegar hún reyndi að svipta sig lífi.

Grein birtist upphaflega á DV.is

Salný mun segja frá sinni göngu úr myrkrinu í ljósið í Fólki með Sirrý á Hringbraut í kvöld.  Hér má sjá stutt brot úr þætti kvöldsins.