Skip to main content
Fréttir

Hrannar Jónsson skrifar.

By september 10, 2014No Comments

Myndir af vél í ágúst 2011 046

Hrannar Jónsson skrifar:

Hver var hviðan sem neistann slökkti?

Hver var dropinn sem glas þitt fyllti?

Þú býrð í mér og ég bý í þér.
Brúin á milli, sem þú eitt sinn áttir,
hún hrundi og fannst aldrei aftur.

Þú gekkst samt þinn veg
og fannst engan annan
Svo þú fórst of snemma
og snýrð aldrei aftur

Þegar eitt faðmlag eða bros
hefði getað vakið upp aftur
Minninguna um lífið.

Einu sinni heyrði ég mann segja frá því þegar hann ætlaði að svipta sig lífi. Hann stökk fram af Golden Gate-brúnni í San Francisco. Hann varð númer 32 í röðinni af þeim sem hafa lifað það af. Þeir eru víst 33 í dag. Mér er minnisstætt að hann sagði að þar sem hann gekk að brúnni, vildi hann helst að einhver hefði stoppað sig. Tekið hann tali, hlustað á hann. Þá hefði hann ekki hoppað. Hann var manneskja sem var örvæntingarfull og sá enga leið út. Þegar ég heyrði í honum ferðaðist hann um og hélt fyrirlestra um þessa lífsreynslu sína.

Ég veit hvernig það er að vera á staðnum þar sem vonin er dáin, þótt ég hafi aldrei tekið skref að neinni brú. Fyrir nokkrum árum lagði ég af stað í aðra göngu, því ég upplifði svo mikið tóm í hjartanu. Þá hafði ég komist að þeirri niðurstöðu að ekkert verkefni væri mikilvægara en að finna neistann aftur. Ég er enn á þessu ferðalagi og skemmti mér sífellt betur. En það breytir því ekki að þetta sálarmyrkur er eitt stærsta þjóðfélagsböl í okkar heimshluta.

Þegar fólk týnist uppi á heiðum fer hugrakkt og gott fólk og leitar og bjargar fjölmörgum mannslífum. Það er gott og eitthvað sem við getum verið stolt af. Hins vegar týnist fólk stundum í blindbyljum uppi á heiðum hugans. Það situr einhvers staðar týnt og eitt, þótt það sé innan um alla hina. Það eru dapurlegar fréttir að fjórar manneskjur á mánuði svipti sig lífi og ég veit að þarna getum við gert miklu betur. Þarna er svo sannarlega eitthvað sem hallar á kynin: Þrír af hverjum fjórum eru karlmenn.
Ég hef þekkt fólk sem hefur ráðið sér bana. Eftir á situr maður auðvitað vanmáttugur og hugsar, hefði ég getað gert eitthvað? Hefði ég getað sagt eða gert eitthvað öðruvísi? Ég var ekki með svar fyrir Björk eða Palla eða Dan eða Luca. Ég er ekki með svörin en ég veit að við getum gert miklu betur.

Í dag, sem mitt litla framlag, ætla ég þó að leggja mig fram um að brosa framan í fólk. Ég ætla að reyna að taka utan um einhverja. Ég ætla að hlusta. Ég ætla að segja einhverri manneskju hversu mikilvægt sé að hún sé til. Þetta er auðvitað eitthvað sem ég vil gera alla daga, en í dag er dagur forvarna gegn sjálfsvígum og ég ætla að reyna aðeins meira.

Dagskrá til minningar um fórnarlömb sjálfsvíga verður tvíþætt í Reykjavík þann 10. september. Annars vegar opin málstofa í Iðnó milli kl. 16 og 17.15 og hins vegar kyrrðarstund í Dómkirkjunni kl. 20. Kyrrðarstundir verða einnig á Egilsstöðum og Akureyri.
Að dagskránni standa Rauði kross Íslands, Geðhjálp, Þjóðkirkjan, Ný dögun, Lifa, Hugarafl, Embætti landlæknis og geðsvið LSH.