Skip to main content
FréttirGreinar

Fullyrði að kraftaverk hafi gerst.

By febrúar 1, 2014No Comments

Innlent | mbl | 1.2.2014 | 15:35 | Uppfært 16:21
Anna Lilja Þórisdóttir
annalilja@mbl.is
mbl.is

Fullyrði að kraftaverk hafi gerst

Sonur Maríu var 19 ára þegar hann greindist með geðhvarfasýki. Síðan eru liðin níu ár og á þeim tíma hefur gengið á ýmsu. Nú fær hann meðferð sem sniðin er að ungu fólki og hún segist trúa því að honum muni batna. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Þetta er ekki spretthlaup, heldur langhlaup.“ Þetta segir móðir ungs manns sem greindist með geðhvarfasýki fyrir níu árum, þá 19 ára gamall. Á þeim tíma hefur hann margoft verið lagður inn, verið sviptur sjálfræði og barist við fíkn. Nú fær hann meðferð sem er sniðin að þörfum ungs fólks, hann er í námi og móðirin segir kraftaverk hafa gerst.

Konan vill ekki koma fram undir nafni og sonur hennar verður heldur ekki nafngreindur hér og við skulum kalla þau Maríu og Björn. Hún segir son sinn hafa barist við kannabisfíkn frá unglingsárum og hann hafði farið nokkrum sinnum í meðferð við henni. Hugsanlega hafi hann verið farinn að sýna einkenni geðhvarfasýki löngu áður en hún áttaði sig á veikindum hans, en erfitt hefði verið að greina á milli þess og fíknarinnar.

Ekki það sama að vera veikur og að vera tapari
María segir að þegar Högni, söngvari í Hjaltalín steig fram og sagði frá reynslu sinni af því að vera með geðhvarfasýki, hafi það verið afar jákvætt fyrir Björn. „Þarna steig ungur, hæfileikaríkur og sterkur maður fram og sagði frá sjúkdómi sínum. Þetta hefur svo mikil og jákvæð áhrif á sjálfsmynd ungs fólks sem er með sömu sjúkdóma.“
„Þegar Högni kom fram áttaði Björn sig á því að það er ekki það sama að vera veikur og að vera tapari.“

„Kannabisfíkn og geðhvarfasýki er slæmur kokkteill og það er ómögulegt að segja hvað kom á undan,“ segir María.

Hélt að þjónarnir væru að eitra fyrir sér

„Sonur minn er einstaklega geðgóður, ljúfur og skemmtilegur ungur maður. En árið 2005 varð mér ljóst að hann væri með geðsjúkdóm. Þá var ég með honum í útlöndum og hann sýndi mjög greinileg einkenni ofsóknaræðis. Hann hélt að allir væru að taka myndir af sér, að það væri verið að eitra fyrir honum á veitingastöðum og staðhæfði að hann hefði séð þjónana strá eitri yfir matinn. Hann var stöðugt að spyrja mig hvort ég væri með „þeim“ í liði á móti honum og fannst sjónvarpið vera að tala beint til sín.
„Kannabisfíkn og geðhvarfasýki er slæmur kokkteill og það er ómögulegt að segja hvað kom á …

„Kannabisfíkn og geðhvarfasýki er slæmur kokkteill og það er ómögulegt að segja hvað kom á undan,“ segir María. AFP
Honum leið skelfilega illa, en ég gat lítið gert í þessum aðstæðum annað en að reyna að sannfæra hann um ég væri ekki með í þessu og fá hann til að treysta mér.“

Eftir að mæðginin komu heim fór María með Björn til læknis og í framhaldinu var hann lagður inn á geðdeild og var greindur með geðklofa. „Ég vissi líklega jafn lítið og margir aðrir, ég vissi ekki betur en að hann væri með ólæknandi sjúkdóm og það var auðvitað óskaplegt áfall, bæði fyrir okkur foreldrana og hann. En þarna fékk hann semsagt lyf, en ekki mikið annað og var sendur heim með lyf eftir nokkra daga.“
Hvernig verður hans líf?

Sonur Maríu vildi ekki fara til læknis um tíma eftir þetta, en hún segist hafa fengið mikla og góða ráðgjöf og aðstoð frá samtökunum Hugarafli. Auður Axelsdóttir sem starfar hjá samtökunum og er forstöðumaður Geðheilsu, geðþjónustu á vegum heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, kom þá heim til þeirra, ræddi við Björn og fékk hann til að leita sér aðstoðar. Hún segir Auði líka alltaf hafa lagt mikla áherslu á að möguleiki væri á að ná bata og það hafi verið mikill léttir fyrir þau öll. „En fyrst sátum við svo ein með þetta. Maður er stundum svo einn í þessum sporum. Þetta var óskaplegt áfall og fyrsta spurningin sem vaknaði var: Hvernig verður hans líf?“

Féll og var rekinn af göngudeild geðdeildar

Líf Björn hefur verið upp og niður frá því að hann fékk greiningu og eins og María kemst að orði er hann stundum í fínu standi. Hann hefur verið í nokkrum störfum, sem honum hefur haldist illa á og hefur verið í námi af og til. „Hann á við þessa tvo sjúkdóma að stríða; geðhvarfasýki og fíkn, fyrst og fremst í kannabis,“ segir hún en Björn hefur núna ekki neytt kannabisefna um skeið.

Í eitt skiptið féll hann og fór að reykja kannabis á meðan hann var í meðferð á göngudeild geðdeildar Landspítalans. María taldi að það væri honum fyrir bestu að læknarnir fengju að vita það, en þá skipti engum togum að hann var rekinn umsvifalaust úr meðferðinni. „Honum var neitað um læknishjálp vegna þess að hann var í neyslu. Það var óskaplega sárt og ég hefði kannski betur látið það ógert að segja frá þessu,“ segir hún.

María segir Björn nokkrum sinnum hafa verið á geðdeild Landspítalans og inni á Kleppi, mislengi og svo oft að hún hefur ekki tölu á því. „Þarna er óskaplega veikt fólk, tveir saman í herbergi. Sumir eru krónískir sjúklingar sem hafa verið þarna í mörg ár og ungt fólk sem kemur þangað á enga samleið með þeim. Þetta er svo kuldalegt og það er svo hræðilega erfitt að fara þangað með hann.“
Neitaði að borða og var sviptur sjálfræði

Björn hefur fengið maníuköst. „Í einu þeirra hljóp hann upp um alla veggi, ofan á húsgögnum og girðingum og taldi sig geta gert bókstaflega allt. Þá skildi hann alls ekki hvers vegna við vildum endilega koma honum til læknis þar sem honum leið svo vel, “ segir María.

Annað maníukast Björns var talsvert alvarlegra, en þá neitaði hann að borða og drekka. „Hann var sannfærður um að hann þyrfti þess ekki, matur og drykkur væri eitthvað sem búið væri að telja fólki trú um að það þyrfti á að halda, en enginn var búinn að átta sig á því nema hann. Við fórum til hans mörgum sinnum á dag og reyndum að fá hann til að hleypa okkur inn í íbúðina sína, en hann vildi það ekki. Að lokum leituðum við til lögreglu og það er líklega eitt það erfiðasta sem ég hef þurft að gera. Hann var orðinn alveg þurr eftir að hafa hvorki borðað né drukkið dögum saman, þannig að það var ekkert val,“ segir María.

„En ég set stórt spurningamerki við framkvæmdina; fjórir einkennisklæddir lögreglumenn á bíl með sírenum og sjúkrabíl að taka fárveikan og máttfarinn dreng sem hefur aldrei beitt neinu ofbeldi. Þetta var svo hrikalegt og hann endurtók hvað eftir annað á meðan verið var að færa hann í handjárn; „Ég hef ekkert gert.“ Hann upplifði þetta sem mikla árás og var lengi að jafna sig. en hann sagði að hann skildi að við þurftum að gera þetta.“

Óskapleg ofsóknarhræðsla

Björn hefur aldrei skaðað sjálfan sig eða aðra í geðhvörfum sínum, en María segir að líklega hafi fólki stundum brugðið við hegðun hans. Eitt sinn hafi hann verið um borð í flugvél ásamt fjölskyldumeðlimi, skömmu áður en vélin tók sig á loft fór hann að sparka í sætin og láta mjög ófriðlega. „Áhöfninni kom þá saman um að það væri ekki forsvaranlegt að fara í loft með hann um borð og vélin var stöðvuð og farið beint með drenginn á geðdeild, segir hún. Það er eins og það komi eitthvað yfir hann. Það er fyrst og fremst þessi óskaplega mikla ofsóknarhræðsla. Í annað skiptið vorum við úti að ganga og spölkorn á eftir okkur var fólk að spjalla saman og hlæja. Hann var viss um að þau væru að öskra á sig og hrækti á þau. Um tíma gat hann ekki farið í strætó því honum fannst að allir inni í vagninum væru á móti sér.“

Frá því að Björn veiktist hefur hann meira eða minna misst tengsl við vini sína og félaga. Hann flosnaði upp úr skóla, en þeir héldu áfram námi. „Þeir hverfa einn af öðrum inn í önnur verkefni, annað líf. Neyslufélagarnir voru lengi vel þeir sem sátu eftir. Þessi félagslegi þáttur hefur verið mikið vandamál.“

Fær þjónustu sem miðuð er við þarfir ungs fólks

Nú nýtur Björn þjónustu í svokölluðu Úrræði LR sem sérstaklega er miðað við þarfir ungs fóks með geðhvarfasýki og markmiðið er að efla þau til að taka virkan þátt í samfélaginu. Síðan þá hefur líf hans breyst til batnaðar. „Hann bjó þar fyrst í tvö ár og sækir nú þangað þjónustu á dagdeild, er á geðlyfjum og er í endurhæfingu. Það er allt annað fyrir hann að vera í slíku umhverfi en að vera í kringum allavegana veikt fólk. Ég hefði gjarnan viljað að hann hefði fengið svona meðferð frá upphafi.“
Trúi því að honum muni batna

Björn er í námi, býr sjálfstætt í íbúð í húsi foreldra sinna og að sögn Maríu hefur hann myndað tengsl við skólafélaga sína. „Ég ætla að fullyrða að það hafi gerst kraftaverk. Það er eitthvað sem ég bjóst alls ekki við árið 2005 þegar hann var greindur fyrst. Þetta gerist hægt, en við erum að fá hann til baka. Ég trúi því og hann trúir því líka að honum muni batna.“